MOLAR frá Erlendi sálfræðingi – MOLI 1

Á meðan samkomubanni stendur munu birtast „molar“ hérna á heimasíðu skólans í boði skólasálfræðings. Molarnir birtast vikulega, á miðvikudögum, og eins og góðum molum sæmir hafa þeir ýmislegt að geyma. Þeir eiga það þó allir sameiginlegt að vera jákvæðir, uppbyggilegir og innihalda einhvers konar æfingar eða leiki sem fjölskyldur geta gert saman til að hlúa að geðheilbrigði sínu.

 MOLI 1 –  Tíu fingur af þakklæti

Að æfa sig í þakklæti er frábær æfing og enn betri þegar við æfum þakklæti með þeim sem okkur þykir vænt um. Verkefnið er að telja upp á fingrum handa okkar það sem við erum þakklát fyrir nákvæmlega núna. Ekki í gær eða hvað við ættum að vera þakklát fyrir heldur hvað er það sem við erum raunverulega þakklát fyrir núna. Þegar við leitum markvisst að því hefur það jákvæð áhrif á hugsanir okkar og líðan. Rannsóknir benda nefnilega til þess að þakklætisæfingar séu afar áhrifarík leið til að hlúa að geðheilsu sinni, sér í lagi á erfiðum tímum. Það er til dæmis hægt að æfa 10 fingur af þakklæti við kvöldverðarborðið þar sem fjölskyldumeðlimir skiptast á. En hvenær sem er, það er góður tími til að æfa 10 fingur af þakklæti. Einu sinni á dag fram á næsta miðvikudag. Gangi ykkur vel og góða skemmtun.

Bestu kveðjur,
Erlendur Egilsson, sálfræðingur

Posted in Fréttaflokkur.