Tvo dagparta í viku er stundatafla nemenda lögð undir þema. Nær allir kennarar á elsta stigi vinna að undirbúningi þema sem nær yfir 3 vikur að jafnaði, eftir umfangi og viðfangsefni hverju sinni. Þær námsgreinar sem liggja til grundvallar þemanu eru samfélagsfræði, náttúrufræði, íslenska og upplýsinga- og tæknimennt, auk þess sem lykilhæfni vegur þungt. Aðrar námsgreinar fá minna vægi í þema en birtast þó reglulega í nokkrum verkefnum. Í verkefnamiðuðu námi eru 21. aldar færniþættir eins og gagnrýnin hugsun, lausnaleit, frumkvæði, ábyrgð og samvinna meginþræðir í verkefnum sem byggja á raunverulegum viðfangsefnum sem nemendur rannsaka og tengja við.
Markmið með þema er að efla þessa færniþætti og gera nemandann að virkum þátttakanda í samstarfi við aðra nemendur auk þess að efla nemendalýðræði sem gengur út á að nemendur hafi frelsi og val til ákvarðana um eigið nám innan marka námskrár. Þemaverkefnin miða öll að því að kveikja áhuga nemenda á náminu, efla metnað þeirra og ýta undir aukinn námsárangur. Þema gerir að auki kröfu um sjálfstæð vinnubrögð nemenda, sjálfstæð vinnubrögð, skapandi hugsun og nálgun bæði nemenda og kennara og loks samþættingu námsgreina.