MOLAR frá Erlendi sálfræðingi – MOLI 2

MOLI 2 – Leitin að jákvæðri tilfinningu

Moli vikunnar er einfaldur en áhrifaríkur leikur í gegnum spjall. Hann er hægt að spila hvenær sem er og börn á öllum aldri mega endilega taka þátt.

Við ætlum að finna eitthvað á hverjum degi sem kveikir jákvæða tilfinningu. Eitthvað sem gerir okkur glöð, spennt, ánægð, hamingjusöm, vongóð, æðrulaus, vær, kíminn, léttlynd eða kannski full tilhlökkunar. Jákvæðar tilfinningar hafa nefnilega ekki bara áhrif á það hvernig okkur líður heldur getur markviss leit okkar að þeim hjálpað okkur að leysa vandamál og aukið mótlætaþol okkar. Þess vegna ætlum við að leita þær uppi. Finna jákvæða tilfinningu og leyfa henni að leiða okkur áfram.

Leitin að jákvæðri tilfinningu er samskiptaleikur. Við tölum saman til að finna hana. Við höfum mjög mismunandi leiðir til að leita af einhverju og það á líka við um leitina að jákvæðri tilfinningu. En hér koma nokkrar tillögur sem hægt er að nota.

Hvað er uppáhaldsmaturinn þinn? Síðast þegar þú borðaðir uppáhaldsmatinn þinn, hvað hugsaðir þú þegar þú vissir að það yrði í matinn?

Hvað finnst þér fyndið? Viltu segja mér/sýna mér eitthvað fyndið?

Hvað hlakkarðu til að gera? Geturðu lýst því fyrir mér? Við reynum að teikna upp góða mynd af tilhlökkunarefninu til að kalla fram sterka tilfinningu.

Hvenær hjálpaðirðu einhverjum síðast? Hvað gerðir þú? Hvað hugsaðir þú þegar þú varst búin/n?

Þegar við setjum orð á hugsanir og lýsum þeim vel sprettur vanalega fram tilfinningin sem við erum að skoða og leita að. Leitin getur falist í sögum, minningum, dæmisögum, löngunum og í raun bara hverju sem. Þetta snýst bara um markvissa leit að jákvæðum tilfinningum. Við stóru börnin höfum gott af því að leita líka. Við skulum því skiptast á enda þykja hinum yngri vanalega mjög gaman þegar við erum með.

Góða skemmtun og gangi ykkur vel,
Erlendur Egilsson, sálfræðingur.

Posted in Fréttaflokkur.