Skólakór Kársnesskóla

Skólakór Kársnesskóla
Skólakór Kársness hóf göngu sína á haustdögum 1975 og þá innrituðu sig um 80 börn í kórinn. Þau yngstu voru 8 ára en elstu krakkarnir 12 ára. Stjórnandinn, Þórunn Björnsdóttir, var þá aðeins 21 árs.

Ári eftir stofnun kórsins var hópnum skipt í tvennt, 8 og 9 ára börnin sungu í litla kór og 10 – 12 ára nemendur voru í stóra kór. Þegar fleiri börn bættust í hópinn og unglingarnir vildu halda áfram í kórnum var þessum 300 krökkum skipt í fjóra hópa, litla kór, miðkór, stóra kór og risakór.

Erfitt var að finna tíma fyrir kóræfingar eftir skóla þegar hóparnir voru svona margir og því var kórstarfið sett inn í stundatöflu nemenda í 3. -7. bekk eins og hver önnur námsgrein og allir nemendur lærðu að syngja í kór og að koma fram með kórnum.

Fyrstu tónleikar kórsins voru í sal skólans við Skólagerði á jólaskemmtun skólans árið 1975 en síðan hefur hann verið atkvæðamikill í íslensku tónlistarlífi og sungið á ótal tónleikum og hátíðarstundum um allt land. Kórinn hefur jafnan átt mjög gott samstarf við Kópavogskirkju og haldið marga tónleika í þar. Kórfélagar hafa einnig sungið við ótal skírnir, giftingar og jarðafarir í kirkjunni og séð um söng í barna- og fjölskyldumessum. Hann hefur líka tekið þátt í mörgum kórahátíðum í Evrópu og verið fulltrúi landsins á erlendum menningarhátíðum m.a. í Kanada og Japan.

Skólakór Kársness hefur gefið út margar hljómplötur og margar þeirra má finna á heimilum Kársnesbúa. Fyrsta platan kom út 1983 og ber nafnið Fögnuður en á henni syngur kórinn íslensk lög og erlend kórverk. Kórinn hefur gefið út 3 jólaplötur.

Skólakór Kársness hefur einbeitt sér að því að flytja íslenska tónlist og mörg tónskáld hafa samið sérstaklega fyrir kórinn. Á hljómplötunum Undir bláum sólarsali, Þýtur í stráum og Bergmál eru eingöngu flutt íslensk lög og tónverk eftir íslensk tónskáld. Einnig hefur kórinn gefið út hljómplötuna Barnagælur með vinsælustu kórlögunum í Kársnesskóla og Æskunnar förunautar, en þar syngur drengjakvartettinn Vallargerðisbræður falleg karlakóralög.

Skólakór Kársness hefur líka sungið inn á hljómplötur fyrir Námsgagnastofnun og önnur útgáfufyrirtæki. Á hljómplötunum Syngjandi skóli og Ef væri ég söngvari syngur Skólakór Kársness ýmis lög sem allir eiga að kunna en þessar útgáfur eiga að efla almennan söng hjá börnum.

Skólakór Kársness hefur tekið þátt í fjölmörgum kóramótum hérlendis og erlendis og unnið til verðlauna á mörgum þeirra.

Fyrsta kórferð Skólakórs Kársness var farin 1983 og ferðaðist kórinn þá um Noreg, Svíþjóð og Finnland. Í hópnum voru 37 börn og var þetta heilmikið og langt ferðalag, þar sem ferðast var með rútum, lestum og farþegaskipum. Foreldrar kórbarna stóðu fyrir hátíðarhöldum á Rútstúni 17. júní til að fjármagna ferðina. Síðan þá hefur kórinn ferðast vísvegar um Evrópu, farið tvisvar til Kanada og Nýfundnalands og einu sinni alla leið til Japan.

Kórstjóri Skólakórs Kársnesskóla er Álfheiður Björgvinsdóttir