Safnað fyrir UNICEF – Góðgerðardagur Kársnesskóla

Góðgerðardagur Kársnesskóla var haldinn föstudaginn 28. maí og söfnuðust 350.000 krónur. Að þessu sinni rennur styrktarféð til Unicef á Íslandi. Nemendur í 7. bekk kusu það með lýðræðislegum hætti eftir að hafa fengið kynningu á nokkrum hjálparstofnunum sem hafa börn í forgrunni sinnar starfsemi.


Í ár var Góðgerðardagurinn í formi happdrættis og útbjuggu nemendur skólans á miðstigi, fjölda vandaðra vinninga í list- og verkgreinatímum og drengir í 10. bekk bökuðu pizzur og seldu á opnum degi í samstarfi við félagsmiðstöðina í skólanum. Einnig gáfu ýmis fyrirtæki og velunnarar skólans, veglega vinninga í happdrættið.

Covid hefur sett líf hundruða milljóna barna úr skorðum á síðastliðnu ári. Í marsbyrjun á þessu ári höfðu 168 milljónir barna ekki komist í skólann í heilt ár og 214 milljónir barna til viðbótar ekki notið kennslu í eigin persónu meirihluta tímans (75% eða meira). Það hefur því verið ákveðið að nýta söfnunarféð upp í bóluefni en fyrir þessa upphæð er hægt að bólusetja 760 börn. Á myndunum hér fyrir neðan má sjá þegar fulltrúi nemenda í 7.bekk, Emilía Margrét afhendir  Eyrúnu Ingu fjáröflunarstjóra söfnunarféð formlega.

 

Frá vinstri: Björg Baldursdóttir, Eyrún Inga fjármálastjóri UNICEF, Emilía Margrét, Guðný Jónsdóttir og Guðmundur Ingi

Posted in Fréttaflokkur.