Skólinn opnar aftur

Ágætu foreldrar/forráðamenn nemenda í Kársnesskóla.

Nú þegar Efling hefur frestað verkfallsaðgerðum getum við opnað skólann aftur og hefjum starfsemi á fimmtudaginn. Morgundagurinn fer í að þrífa skólann hátt og lágt og vandlega. Við erum svo sannarlega farin að sakna þess að sjá ekki börnin okkar.
Það er gott að það komi þó fram að það er auðvitað þannig að fólk getur valið hvort það sendi börnin sín í skólann á þessum tímum samkomubanns, skólinn verður opinn og kennsla samkvæmt því sem kemur fram hér að neðan. Við viljum líka vekja athygli á því að börn sem eru með undirliggjandi sjúkdóma eiga ekki að sækja skóla og börn með flensulík einkenni eiga ekki heldur að koma í skólann. Kennarar halda áfram að senda heimavinnuáætlanir til þeirra barna sem eru heima eins og áður.

Börn framlínu starfsfólks sem eru í 1. og 2. bekk fá forgang að skólavist og frístund á meðan samkomubann stendur yfir. Það þarf að sækja um á island.is. Við ætlum að forgangsraða og opna frístundina á hádegi á morgun fyrir börn framlínu starfsfólks sem þurfa nauðsynlega á frístundavist að halda. Ég bið foreldra þeirra barna að setja sig í samband við Vinahól með tölvupósti sem fyrst!
Svona lítur skipulagið út hjá okkur eins og staðan er núna – við erum öll á tánum en komum til með að breyta og aðlaga eftir því sem fram vindur. Eitthvað er farið að kvarnast úr kennarahópnum okkar og erum viðbúin því að starfsfólk þurfi að vera heima.

. Kennsla verður fyrir börn í 1. – 2. bekk á hverjum degi í minni hópum (15- 17 nem). Þau geta líka nýtt sér frístund en við horfum til þess að hóparnir sem við skiptum þeim í hittist ekki. Það eru líka tilmæli um að þau börn sem eru í minni hópum í skólunum leiki bara við þau börn sem eru í þeirra hópi eftir skóla. Börnin sem eru lengstan skóladag (til um það bil kl.14.00) bjóðum við hádegisverð í skólanum – búið er að skipta starfsfólki upp og sjá til þess að hóparnir borði í skólastofunni og þeim verður skammtað á diska. Yngstu nemendunum verður líka fylgt á salerni til að hjálpa þeim við handþvott og sprittun.
. 3. – 5. bekkur verður í skólanum frá um 8.10 til hádegis á hverjum degi
. Fjarkennsla fyrir nemendur í 6. – 10 .bekk en þó þannig að þau komi inn í minni hópum á hverjum degi og hitta kennara.

Nánari skipulagning og tímasetning kemur til ykkar í dag eða á morgun frá umsjónarkennurum. Kennarar senda ykkur líka upplýsingar um hvar nemendur eiga að ganga inn í skólann. Við verðum öll að vanda okkur og virða þau tilmæli sem við fáum frá yfirvöldum. Við viljum því líka beina því til foreldra að koma ekki inn í skólann heldur kveðja börnin ykkar fyrir utan ef þið fylgið þeim í skólann, þannig pössum við enn betur uppá smithættu.
Allir nemendur komi með nesti! Síminn opnar á morgun kl. 9.00 og ég bið ykkur að láta okkur vita ef börnin ykkar koma ekki í skólann. Þið getið hringt á morgun, sent umsjónarkennurum tölvupóst eða skráð þau fjarverandi í Mentor, allt jafn gilt.
Gangi ykkur vel og farið vel með ykkur!

Björg Baldursdóttir
Kársnesskóli

Posted in Fréttaflokkur.