Lög foreldrafélagsins

1. gr.
Félagið heitir Foreldrafélag Kársnesskóla. Heimili þess og varnarþing er í Kópavogi.

2. gr.
Félagar eru allir foreldrar og forráðamenn barna í Kársnesskóla.

3. gr.
Markmið félagsins er að vinna að velferð og vellíðan barna í skólanum, efla samstarf foreldra og starfsfólks skólans og koma á framfæri sjónarmiðum foreldra varðandi skóla, menntun og uppeldismál barna.

4. gr.
Til að ná þessum markmiðum hyggst félagið:
starfa eftir þeim ákvæðum laga og reglugerða sem Alþingi og menntamálaráðuneyti setur um grunnskóla.
kynna sér kennsluhætti og uppeldismarkmið skólans, fylgjast með skólastarfinu og koma á framfæri rökstuddum óskum um breytingar.
skipuleggja og þróa fræðslu til að efla samstarf heimila og skóla og styðja eftir megni félags- og tómstundastarf nemenda.
standa fyrir fræðslu og upplýsingamiðlun til foreldra m.a. með útgáfu fréttabréfa og fræðslufunda.
taka þátt í samstarfi við önnur foreldrafélög og samstök foreldra.

5. gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn að vori ár hvert, eigi síðar en 2 vikum fyrir skólaslit og skal hann boðaður með a.m.k. viku fyrirvara. Fundurinn er löglegur ef löglega er til hans boðað. Á fundinum er m.a. flutt skýrsla fráfarandi stjórnar, lagðir fram endurskoðaðir reikningar, kosin stjórn samkvæmt lögum félagsins og gengið frá lagabreytingum ef einhverjar eru.

6.gr.
Í hverri bekkjardeild starfa 2 til 3 bekkjarfulltrúar foreldra/forráðamanna (tenglar) sem hafa yfirumsjón með bekkjarstarfi. Bekkjarfulltrúar skulu valdir að hausti til eins eða tveggja ára í senn af foreldrum/forráðamönnum hverrar bekkjardeildar. Bekkjarfulltrúar allra bekkja mynda fulltrúaráð skólans og skal stjórn félagsins boða þá til sameiginlegra funda minnst tvisvar á ári einu sinni á haustönn og einu sinni á vorönn.

7. gr.
Stjórn félagsins er skipuð 6 foreldrum. Æskilegt er að stjórnarmenn eigi börn á neðsta, mið og efsta stigi og að skiptin séu jöfn. Æskilegt er að stjórnarmenn sitji a.m.k. tvö ár. Skulu þá 3 stjórnarmanna kosnir annað árið og 3 hitt. Stjórnin skiptir með sér verkum.

8. gr.
Lögum þessum má breyta með einföldum meirihluta á aðalfundi enda hafi lagabreytingar verið kynntar í aðalfundarboði.