Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs er haldin árlega í tengslum við Ljóðstaf Jóns úr Vör, árlega ljóðasamkeppni Lista- og menningarráðs Kópavogs. Markmiðið með grunnskólakeppninni er að efla áhuga barna og ungmenna á Ljóðagerð og geta öll grunnskólabörn í Kópavogi tekið þátt.
Okkur í Kársnesskóla þykir ánægjulegt að tilkynna að sigurljóðið í ár kemur frá Jóhönnu Kötlu Kristjánsdóttur, nemenda í 6.bekk Kársnesskóla og hlaut hún 30.000 kr í verðlaun.
Hér er ljóðið hennar:
Hugleiðsluljóð
Þú liggur í grasi,
döggin á blöðunum lekur í andlitið á þér.
Þú sest upp og horfir á blómin og grasið
það er yndislegt,
þú labbar og kemur auga á rólu í tré
Þú klifrar upp og losar róluna
Þú sveiflar þér í rólunni og finnur vindinn
strjúka hárið á þér.
Þú vaknar í rúminu þínu.
Matthías Haukur Daníelsson, 6.bekk Kársnesskóla, fékk einnig sérstaka viðurkenningu fyrir ljóðið sitt.
Hér er ljóðið hans:
Dafnandi stjörnur
Stjörnurnar skína skært hátt uppi á himni,
þær eru alls staðar úti í uppheimi og geimi.
Þær lýsa eins skært og orkugeimir.
Allar sitja þær uppi í 10 milljarða ára,
bíðandi eftir tímanum sínum til að klára.
Þegar hann klárast brenna stjörnurnar til sára,
óðar til að þjóta niður til jarða,
en komast því miður ekki í gegnum lofthjúpinn gamla
En gamanið mun alltaf kárna á enda,
þær springa allar í sprengistjörnu seinna,
en verða samt að halastjörnu og deyja,
og breytast oft í hyldjúpt svarthol og segja:
Bless ljúfa veröld, það var gott að hafa völd.
Rétt áður en það svarta tekur við um öld.