Skólamót Kópavogs 2024 í skák fór fram dagana 17. og 18. apríl í liðinni viku og var haldið á vegum Breiðabliks í Stúkunni á Kópavogsvelli. Þar tóku 89 keppendur þátt frá 9 skólum: Álfhólsskóla, Hörðuvallaskóla, Kársnesskóla, Kópavogsskóla, Kóraskóla, Lindaskóla, Smáraskóla, Snælandsskóla og Vatnsendaskóla. Um var að ræða einstaklingskeppni að þessu sinni og var mótinu skipt niður eftir aldri og bekk. Keppt var í fimm umferðum með tímatakmörkunum.
Kársnesskóli átti tvo fulltrúa á mótinu, þær Mareyju Kjartansdóttur og Ólöfu Höskuldsdóttur, sem báðar eru í 3. bekk. Marey hafnaði í 3. sæti í sínum aldursflokki og hreppti því bronsið. Ólöf kom á hæla Mareyjar í 4. sæti. Þess má geta að Ólöf var annar tveggja 3. bekkinga sem keppti líka á 4. bekkjar riðlinum fyrr um daginn. Þær æfa báðar skák hjá Taflfélagi Garðabæjar undir leiðsögn Lenku Ptácníková stórmeistara og hjá Skákskóla Íslands undir leiðsögn Jóhönnu Bjargar Jóhannsdóttur landsliðskonu og skákkennara. Við óskum þeim til hamingju með þennan flotta árangur!