Kvennaverkfall 24.okt 2023

Hér að neðan er bréf sem er frá menntaviði Kópavogsbæjar:

,,Kæru foreldrar/forráðamenn
Fjölmörg samtök kvenna, hinsegin fólks og launafólks hafa boðað til kvennaverkfalls þriðjudaginn 24. október 2023.
Ljóst er að veruleg röskun getur orðið í öllu samfélaginu þennan dag og gera má ráð fyrir að áhrifin verði mikil í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum þar sem stór hluti starfsfólksins þar eru konur eða kvár.

Stjórnendur hjá Kópavogsbæ hafa verið hvattir til að skipuleggja starfsemi á vinnustöðum þannig að unnt sé að veita lágmarks þjónustu.
Foreldrar/forsjáraðilar sem ekki hafa önnur úrræði fyrir börnin sín eru beðin að láta vita af því sem fyrst þar sem huga þarf að mönnunarþörf og skipulagi.
Leikskólastjórar, grunnskólastjórar og forstöðumenn frístundaheimila og félagsmiðstöðva munu upplýsa foreldra/forsjáraðila um með hvaða hætti starfsemi á viðkomandi stað verður þennan dag.
Menntasvið“

Hér í Kársnesskóla getum við ekki haldið úti óbreyttu skólastarfi næsta þriðjudag. Í skólanum verða einungis starfandi karlkyns kennarar, stuðningsfulltrúar og húsvörður og telur fjöldi þeirra um það bil tíu til þrettán manns. Eðli starfseminnar þennan dag tekur mið af fjölda barna sem kemur í skólann en ljóst er að engin starfsemi verður í mötuneytinu og þeir nemendur sem mæta í skólann þurfa að koma með nesti, bæði fyrir hádegi og morgunnesti.
Í Vinahóli verða þrír starfsmenn og verður óskað eftir því að foreldrar sæki sín börn í Vinahól ef fjöldi þeirra sem mæta fer yfir það sem starfsmenn geta sinnt með góðu móti og af öryggi.
Að þessu sögðu biðjum við um að foreldrar sendi aðeins barn sitt í skólann ef það getur ekki gert aðrar ráðstafanir en skólinn og frístund verður auðvitað opinn fyrir þau börn sem þess þurfa.
Ég vil biðja ykkur foreldra/forráðamenn að senda okkur póst á netfangið ritari@karsnesskoli.is eða hringja í síma 4414600 fyrir kl. 12.00 á mánudaginn og láta okkur vita ef barnið mætir í skólann.

Posted in Fréttaflokkur.