Styrkur frá Forriturum framtíðarinnar

Þau gleðitíðindi bárust okkur rétt fyrir skólalok að Kársnesskóli hefði hlotið styrk úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar en sjóðurinn vill stuðla að aukinni fræðslu og áhuga meðal barna og unglinga á forritun og tækni. Í ár styrkir sjóðurinn 18 skóla um sem nemur 5 milljónum króna.

Styrkir skiptast í tvo meginflokka, annars vegar er úthlutað um 1,9 milljónum króna vegna námskeiða sem kennarar geta sótt til að efla sig í forritunarkennslu og hins vegar er úthlutað um 3,4 milljónum króna til kaupa á smátækjum í forritunar- og tæknikennslu ásamt úthlutun á notuðum tölvubúnaði sem hollvinir FF gefa sjóðnum árlega.

Kársnesskóli hlaut styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu að upphæð kr. 250.000 krónur og þarf ekki að taka fram að slíkur styrkur kemur sér afar vel.

Kennarar í Kársnesskóla hafa stigið stór skref undanfarið varðandi rafræna kennsluhætti og er áhugi á að efla slíkt námsumhverfi enn frekar, því er ljóst að styrkurinn mun koma að afar góðum notum fyrir starfsfólk og nemendur Kársnesskóla.

Posted in Fréttaflokkur.