Það er gaman að segja frá því að við í Kársnesskóla eigum nokkra skáksnillinga sem eru að æfa og keppa í skák.
Skólaskákmót Kópavogs fór fram dagana 25.-26. mars 2025. Mótið var haldið í Breiðabliksstúkunni og sá Skákfélag Breiðabliks um skipulag mótsins. Keppt var í sex aldursflokkum, í 5-6 umferðum með tímatakmörkunum. Marey Kjartansdóttir, nemandi í 4. bekk í Kársnesskóla keppti fyrir hönd skólans og hafnaði í öðru sæti í sínum aldursflokki og tryggði sér þar með sæti á Landsmótinu í Skólaskák sem fer fram í byrjun maí á Ísafirði. Marey æfir skák þrisvar í viku hjá Skákdeild Breiðabliks. Við óskum Marey innilega til hamingju.
Nánar mér lesa um mótið hér
Hólmsteinn Pétursson sem er í 1. bekk Kársnesskóla æfir einnig skák hjá Breiðabliki. Hann er gríðarlega áhugasamur í íþróttinni, hefur tekið þátt í mótum og gengið mjög vel. Hann varð til að mynda efstur í sínum árgangi í hinu árlega jólapakkamóti Taflfélags Garðabæjar sem haldið var í Miðgarði laugardaginn 14. desember 2024 þar sem hann hlaut 5 vinninga. Hólmsteinn sigraði sinn árgang (2018) á stúlkna- og drengjameistaramóti Reykjavíkur sem fór fram sunnudaginn 9. mars í Skákhöll Taflfélags Reykjavíkur og varð í þriðja sæti samanlagt á öllu mótinu (nemendur í 1. – 3. Bekk). Þjálfari Hólmsteins er Lenka Ptáčníková sem kennir 1.-3. bekk í skákdeild Breiðabliks en hún er íslenskur skákmeistari. Við óskum Hólmsteini góðs gengis í skákinni í framtíðinni.