Síðustu mánuðir fyrir jól eru heldur betur gósentíð í bókabransanum og hillur bókasafnsins okkar svigna undan nýjum barna- og ungmennabókum. Síðustu vikur hafa verið öðruvísi en vanalega á bókasafninu en við héldum því opnu og höfðum þann háttinn á að hleypa aðeins einum bekk í einu inn á safn og þrífa vel á milli bekkja. Stundaskrá safnsins varð rafræn og plássin umsetin og vel nýtt. Bókakynningar voru haldnar fyrir nemendur inni á bókasafni og lesið upp úr nýjum bókum.
Nemendur eru að vanda duglegir að taka bækur og þær nýjustu eru auðvitað vinsælastar. Nýja bókin um Orra óstöðvandi, bókin hennar Möggu Messi hefur til dæmis varla sést í hillum safnsins frá því að eintökin sex sem voru keypt af henni fóru í umferð. Kiddi klaufi stendur alltaf fyrir sínu, Handbók fyrir ofurhetjur, Hundmann, Þín eigin undirdjúp og Randver eru einnig meðal vinsælustu bókanna. Á meðal yngri lesenda eru bækurnar um Binnu B. Bjarna og Jónsa á toppnum ásamt bókaröðinni Ekki opna þessa bók. Annars er úrvalið frábært þessi jólin og allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Á hinu skemmtilega bókabloggi, Lestrarklefanum, má lesa umfjallanir um margar af nýju bókunum. Mjög áhugavert blogg sem hiklaust er hægt að mæla með, til dæmis fyrir þá sem vantar hugmyndir af bókum í jólapakkana: https://lestrarklefinn.is/. Einnig var Kiljan með góða umfjöllun um margar af nýju barnabókunum. Hér má jafnframt finna Bókatíðindin rafrænt: https://vefbirting.prentmetoddi.is/Bokatidindi/2020/.
Við í Kársnesskóla vorum afar dugleg að nýta okkur rafrænar bókakynningar og upplestra höfunda en þá má finna á Facebook síðum helstu bókaútgefanda.
Árlegi jólasveinaratleikur 4.-7. bekkjar var á sínum stað við mikla ánægju nemenda. Krakkarnir vinna saman í litlum hópum og eiga að finna myndir af öllum 13 jólasveinunum og leysa síðan stafarugl til að finna leyniorð.