Þau gleðitíðindi bárust okkur á vordögum að Kársnesskóli hefði hlotið styrk úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar en sjóðurinn vill stuðla að aukinni fræðslu og áhuga meðal barna og unglinga á forritun og tækni. Í ár styrkir sjóðurinn 28 skóla um sem nemur 9 milljónum króna og er úthlutað vegna námskeiða, námsefnisgerðar, kaupa á smærri tækjum í forritunar- og tæknikennslu og tölvubúnaði. Sótt var um styrki sem nema yfir 40 milljónum króna og því var ekki hægt að veita öllum styrk sem sóttu um.
Kársnesskóli hlaut styrk til kaupa á minni tækjum í forritunar- og tæknikennslu að upphæð kr. 150.000- og einnig námskeiðsstyrk fyrir kennara til forritunar- og tæknikennslu að upphæð kr. 200.000-.
Kennarar í Kársnesskóla hafa stigið stór skref undanfarið varðandi rafræna kennsluhætti og er áhugi á að efla slíkt námsumhverfi enn frekar, því er ljóst að styrkurinn mun koma að afar góðum notum fyrir starfsfólk og nemendur Kársnesskóla.