MOLI 4 – Mótlætaþol og aukin ábyrgð
Nú erum við gengin ansi langt inn í samkomubann. Á sumum heimilum er komin þreyta í okkur og börnin okkar. Það sem gerist vanalega í þreytu er að við töpum einbeitingu. Sumir verða styttri í spuna, samskipti mögulega snúnari og reglur verða óskýrari. Hegðunarvandi barna og unglinga getur líka verið farinn að magnast, sér í lagi á þeim heimilum þar sem hann var talsverður fyrir.
Moli vikunnar snýr því að mótlætaþoli og hvernig við getum nýtt aukna ábyrgð til að fást við lágt mótlætaþol. Mótlætaþol er færnin okkar til að svara upplifuðu mótlæti með raunsærri túlkun á aðstæðum, passlegum tilfinningastyrk og áhrifaríkri hegðun. Það þýðir að við sjáum skýrt það sem er að, höldum nokkurn veginn hausnum köldum og gerum eitthvað sem virkar til að fást við það sem er að. Þetta þol er sum staðar orðið lítið og vanlíðan hefur þá vaxið í takt.
Með því að auka ábyrgð barnanna á hversdagslegu lífi fjölskyldunnar getum við aukið mótlætaþol. Því ef þú hefur skýrt hlutverk og nokkuð skýran tilgang þá er oftast mun auðveldara að fara í gegnum erfiðleika.
Ég hvet ykkur því til að finna eitthvað eitt hlutverk á heimilinu sem barnið ykkar getur sannarlega borið ábyrgð á næstu viku. Það getur verið passa að öll fjölskyldan borði 3 ávexti yfir daginn og skeri þá niður eða að passa hvaða spil er spilað eftir kvöldmat og hafa allt saman til. Finnið einföld atriði sem þau bera ábyrgð, alla daga vikunnar og snýr ekki eingöngu að þeim heldur fjölskyldunni í heild. Þetta eiga ekki að vera heimilisverk heldur eitthvað sem hefur jákvæð áhrif á líðan fjölskyldunnar (ekki það að ryksygun eða frágangur þvotts lifti ekki andanum). Ég hvet ykkur líka til að hjálpa þeim að túlka þessa auknu ábyrgð á raunsæjan en jákvæðan hátt með viðeigandi tilfinningastyrk og áhrifaríkri hegðun. Kannski verður þó svarið sum staðar „ertu að grínast, á ég að gera allt?! Ef það gerist erum við kominn með góðan umræðugrundvöll um mótlætaþol og sameiginlega ábyrgð.
Gangi ykkur vel og góða helgi.
Erlendur sálfræðingur