Hvað er söguaðferð?
Söguaðferðin er kennsluaðferð/hugmyndafræði sem hjálpar kennurum og nemendum að koma með sínar eigin hugmyndir um hvernig vinna má með viðfangsefni námskrár t.d. í samfélagsfræði, náttúrufræði, íslensku og sköpun. Á sama tíma sér kennarinn um að unnið sé að hæfniviðmiðum námskrár.
Tilgangurinn er að gera nemendur áhugasama með því að hafa vinnuna fjölbreytta og auðvelda samþættingu. Móðurmálið er alltaf í lykilhlutverki í öllum verkefnum en síðan er misjöfn áhersla á umfjöllunarefni útfrá efni verkefnisins/sögurammans, allt eftir þeim hæfniviðmiðum sem unnið er með hverju sinni.
Söguaðferðin byggir á kenningum margra fræðimanna og segjum við stundum að við tökum það besta frá öllum. Má þar nefna helstan John Dewey „Learning by doing“. Dewey segir að við lærum með því að gera sjálf og hugsa sjálf. Hann lagði áherslu á sambandið milli aðgerðar og hugsunar og að nám yrði til við að leysa vandamál. Dewey lagði einnig áherslu á að börn læra af umhverfi sínu. Segja má að þetta sé undirstaða söguaðferðarinnar, en samskipti við nemendur og kennara eru einnig mikilvæg. (Dewey, Reynsla og menntun, 2000; Experience and Education 1938).
Söguaðferðin dregur nafn sitt af skipulaginu sem er eins og saga, það hefur ákveðna byrjun, skiptist í kafla sem tengjast og hefur ákveðinn endi. Hvert verkefni er sett fram í söguramma sem er um leið vinnuplagg fyrir kennarann. Þar koma fram m.a. lykilspurningar sem leiða áfram vinnuna í sögurammanum/verkefninu því vinna nemenda er skipulögð út frá svörunum við lykilspurningunum. Lykilspurningar eru opnar spurningar sem gefa tækifæri á mörgum góðum svörum en ekki einu ákveðnu. Lögð er áhersla á að kanna fyrri þekkingu nemenda og vinna út frá henni. Gefa þeim tækifæri til að hugsa, ímynda sér og setja fram tilgátur áður en hið raunverulega er skoðað.
Í sögurammanum koma einnig fram tillögur að stærð hópa við vinnuna, efni og gögn og afrakstur það er hvert er markmiðið með hverri lykilspurninu og vinnunni út frá henni. Mikil áhersla er lögð á ýmiss konar samvinnu í misstórum hópum, einnig að nemendur læri að ræða saman og komast að niðurstöðu og segja frá vinnu sinni bæði inni í bekk og á foreldrakvöldum þar sem foreldrar eru boðnir í skólann til að fræðast um sögurammann sem unnið hefur verið að.
Hver sögurammi er vel skipulagður en alltaf er rúm fyrir nýjar hugmyndir frá nemendum og kennurum um leið og vinnunni vindur fram. Vinna við hvern söguramma tekur mislangan tíma en meginreglan er að mikilvægt er að halda sögunni gangandi með því að vinna að sögurammanum ekki sjaldnar en tvisvar til þrisvar í viku og að verkefni fyrir yngri nemendur vinni styttri söguramma en þau eldri. Þar sem samþætting er snar þáttur í vinnunni er auðvelt að halda efninu vakandi í gegn um alls konar verkefni í íslensku og stærðfræði meðfram annarri vinnu við sögurammann. Ákveðin byrjun og endir eru mikilvæg því það er hvetjandi að ljúka við verk og líta yfir farinn veg og gleðjast yfir unnu verki og fá síðan að byrja upp á nýtt og hafa tækifæri til að gera enn betur en síðast. Mikið er lagt upp úr sköpun og að setja afrakstur vinnunnar fallega upp á vegg. Virðing fyrir verkum nemenda er okkur mikilvæg.
Foreldrakvöldin eru endirinn og um leið eins konar uppskeruhátíð. Fyrir þau gefst tækifæri til að rifja upp allt verkefnið og undirbúa dagskrá og um leið þjálfa nemendur sig í að koma fram. Reynslan af þessum samkomum er afskaplega góð og er þátttaka foreldra í gegn um árin nánast 100%. Foreldrarnir koma einnig með veitingar sem allir gæða sér á í lokin. Þarna hefur skólinn gott tækifæri til að fá til sín foreldra og kynna þeim starfið um leið og markmiðum námskrár um að þjálfa nemendur í að miðla og koma fram er náð.
Söguaðferðin hentar fyrir ýmsan aldur en hefur mest verið notuð á yngsta og miðstigi en einnig í leikskólum og á elsta stigi og í fullorðinsfræðslu í einstökum verkefnum.
Á Íslandi hefur Kársnesskóli verið fremstur í flokki í að vinna með söguaðferðinni og hefur þar verið unnið samfellt með söguaðferðina síðan 1993. Góð reynsla er af þessari vinnu og hefur það hjálpað kennurum að hafa vinnu nemenda fjölbreytta og skapandi.
Sögurammar sem falla að námskrá og aldri hafa verið samdir fyrir kennara að vinna með. Má þar nefna sögurammana: Álfar og bústaðir þeirra, Skólinn okkar, Saga af Suðurnesjum, Reykjavík höfuðborgin okkar, Landnámið, Náttúrufyrirbæri á íslandi, Þjóðgarðurinn, Ferð um Evrópu, Mannslíkaminn o.fl.
Björg Eiríksdóttir (http://soguadferdin.weebly.com)
Söguramminn Þjóðgarðurinn