Foreldrafélag

Foreldrarölt

Fundargerðir foreldrafélagsins

Lög foreldrafélagsins

Stjórn foreldrafélagsins

Foreldrafélag Kársnesskóla er félag allra foreldra sem eiga börn í skólanum. Markmið þess er að vinna að velferð og vellíðan barna í skólanum, efla samstarf foreldra og starfsfólks skólans og koma á framfæri sjónarmiðum foreldra varðandi skóla, menntun og uppeldismál barna.
Netfang foreldrafélagsins er: foreldrafelag-kars@kopavogur.is

Stjórn félagsins er skipuð 6 foreldrum og skiptir hún með sér verkum. Reynt er að hafa skipun stjórnar þannig að öll þrjú stig skólans eigi þar sína fulltrúa.

Foreldrafélagið gengst fyrir einstökum fundum um tiltekin málefni sem varða skóla- eða uppeldismál, gefur út fréttabréf o.fl.

Félagið skipuleggur foreldrarölt um helgar meðan skólaárið stendur yfir. Þar skiptast foreldrar unglinga á elsta stigi á um að rölta um vesturbæinn að kvöldlagi, m.a. til að koma í veg fyrir hópamyndanir eftir löglegan útivistartíma og vera tilbúin til aðstoðar ef þörf er á.

Jafnframt sinnir það öðru forvarnastarfi s.s. að koma á foreldrasamningum í tilteknum árgöngum en foreldrasamningur er viljayfirlýsing um sameiginlega afstöðu gagnvart t.d. útivistartíma og neyslu áfengis og annarra vímuefna.

Starf foreldrafélagsins felst ekki síst í að styðja við og efla eftir megni félags- og tómstundastarfið í skólanum.

Foreldrafélagið sér um skipan bekkjarfulltrúa foreldra eða forráðamanna fyrir hvern bekk sem síðan eru tengiliðir við aðra foreldra í bekknum og hafa yfirumsjón með bekkjarstarfi.

Foreldrafélagið sér um að koma á laggirnar nefndum eða hópum sem síðan skipuleggja ýmsar skemmtanir s.s. öskudagsskemmtun, jólaföndur og vorhátíð.

Að öðru leyti reynir félagið að vera starfsfólki skólans innan handar þegar þörf er á hjálpfúsum höndum.

Foreldrafélagið er aðili að SAMKÓP sem eru samtök foreldrafélaga og foreldraráða við grunnskóla Kópavogs. SAMKÓP miðlar upplýsingum til foreldrafélaganna og stendur m.a. fyrir ýmsum málþingum og ráðstefnum um skóla- og uppeldismál.

Aðalfundur foreldrafélags Kársnesskóla er haldinn á hverju hausti og þar er kosið til stjórnar og reikningar lagðir fram.